Lýsing á Miðfjarðará og Litlu-Kverká, ásamt helstu veiðistöðum (höf. Gylfi Pálsson).

Miðfjarðará, sem kemur upp á Mælifellsheiði, norðvestan undir Kistufelli, hefur mikið vatnasvið og aðdraganda og ber öll einkenni dragár, getur vaxið snögglega í stórrigningum. Í hana fellur Litla-Kverká að vestan skammt neðan við eyðibýlið Kverkártungu. Alllangt inni á Miðfjarðarheiði er Djúpavatn, úr því fellur Litlilækur í Miðfjarðará. Í vatninu hafa fengist stórar bleikjur í net en ekki fer miklum sögum af stangveiði enda ekki verið mikið stunduð. 

Miðfjarðará rennur mikið til í gljúfri ofan af Miðfjarðarheiði og niður að ármótum Litlu-Kverkár. Fálkafoss er í Miðfjarðará skammt ofan við ármótin. Að honum gengur fiskur en einnig fer fiskur upp í Litlu-Kverká. Fyrrum var talið að hann gengi upp að fossi, tæpum kílómetra ofan við ármótin, undir honum heitir Klapparhylur.  Komið hefur í ljós að lax stekkur fossinn og kemst rúma tvo kílómetra til viðbótar, upp að Brúarfossi. Undir honum er Brúarhylur, skeifulaga, hömrum girtur og hyldjúpur. Það er tilkomumikil sjón að horfa á laxana reyna að stökkva fossinn. Þeir sprækustu komast upp undir fossbrúnina en falla svo niður í hylinn aftur.

Frá sjó og upp í Fálkafoss eru tæpir þrír kílómetrar. Aðeins skemmra er að Klapparhyl í Litlu-Kverká. Undir Fálkafossi safnast laxinn saman. Hylurinn er stór og lygn og endar í broti þar sem stórgrýti hefur hrunið í ána. Þar fyrir neðan myndast strengur. Laxinn heldur sig aðallega ofan við brotið eða í strengnum. Tiltölulega auðvelt er að skyggna hylinn. Oft má sjá í torfunni sem þar liggur mjög stóra fiska og þá er átt við laxa fast að þrjátíu pundum. Þarna halda þeir til allt sumarið, láta sjá sig einstaka sinnum, en gefa sjaldnast færi á sér.

Fálki, eins og hylurinn er gjarnan nefndur, er freistandi fluguveiðistaður. Staðið er að veiðinni vestan megin ár.

Varphylur er næstur, áin fellur í smáþrepi niður í hylinn og myndar streng sem deyr út í lygnu. Þetta er stórgrýttur veiðistaður. Laxinn getur verið víða í hylnum í skjóli við stóra steina og illt að koma auga á hann, aðkoman er einnig nokkuð erfið.

Til þess að komast að næsta hyl, Skrúð, verður að fara aftur sömu leið upp úr gljúfrinu og niður í það aftur rétt ofan við Skrúð. Áin fellur af flúðum niður í hylinn þar sem hann er tiltölulega þröngur og í honum stórt bjarg austan megin. Skrúður er 50-60 metra langur, hyldjúpur ofan til og lygn neðar, endar þar sem stórgrýti hefur hrunið úr gljúfurveggnum. Eftir það eykst fallhraði árinnar á ný. Í Skrúð eru legustaðir víða, aðallega við austurbakkann, ekki síst rétt áður en fellur út úr honum. Skrúður er góður fluguveiðistaður þótt þröngt sé um bakkastið.

Neðan við beygju í gljúfrinu fellur áin af flúð niður í dálítinn pott eða ker, þverhnípt bjarg er að austanverðu, þarna er Bjarghylur.

Þá verður næst fyrir Efri-Ármótahylur, skammt ofan við ós Litlu-Kverkár. Að honum eru háir bakkar, klettar ganga út í ána að vestanverðu, fyrir þá þarf að vaða. Hylurinn er mjög djúpur efst þar sem fellur niður í hann en grynnkar síðan og eru berar klappir í botninum í neðri hluta hans og auðvelt að koma auga á fisk sem þar liggur. Í göngu staldra fiskur við í ármótunum sjálfum og þar má stundum setja í einn og einn lax. Nú erum við komin niður úr gljúfrunum og þá breytir áin um svip. Þó eru árbakkarnir enn háir, einkanlega að vestanverðu.

Neðri-Ármótahylur er fremur grunnur, áin rennur á stallaðri klöpp með pollum eða skálum hér og þar. Fluga fer vel í þessum hyl. Í neðri hluta árinnar skiptast á í botninum klappir, möl og grjót.

Fyrir ofan Draugafoss, sem fellur af um tveggja metra háum stalli, skiptir áin sér, meginkvíslin fer niður með austurlandinu í sjálfan fossinn. Fosshylurinn er veiddur austan megin frá. Í hylnum, sem er fremur grunnur, veiddist áður fyrr töluvert af bleikju en stórlega hefur dregið úr bleikjugöngum í ána hin síðari ár. Malarkambur gengur skáhallt frá vesturlandinu út í ána. Vaðið er út þann kamb. Utan við hann er renna þar sem enn er bleikjuvon.

Beint niður af veiðihúsinu, sem stendur innan við Rauðalæk, er Steinbogahylur. Þar er berggangur þvert yfir ána. Veitt er bæði ofan og neðan gangsins. Bugða er á ánni ofan hylsins og stór steinn. Áin fellur að meginhluta austan við steininn og síðan yfir “steinbogann” niður í djúpan poll. Neðan við hann grynnkar áin og breikkar, rennur á klöppum með skálum í niður að stóru grettistaki sem er vestan við miðju árinnar. Austan megin við grettistakið eru tvær rennur sem laxinn stansar í.

Síðan rennur áin stríð í grjóti og er ekki um veiðistaði að ræða fyrr en niðri í Háabakkahyl. Í honum eru tveir stórir steinar sem laxinn liggur við.

Þá sveigir áin til austurs og aftur til norðurs og rennur á malareyrum. Þar var búinn til hylur sem fékk nafnið Hölkni. Á göngutíma staldrar lax við í hylnum.

Neðan við næsta þrep hægir áin aðeins á sér við stórgrýtisfyrirstöðu. Þar heitir Þurrkeyrarhylur.

Áfram rennur áin í grjóti niður í Húsahyl. Þá erum við skammt ofan við eyðibýli sem heitir Miðfjarðarnessel. Húsahylur er lygn og langur, ekki mjög djúpur, hann var talinn gjöfull veiðistaður á árum áður en hin síðari ár hefur veiði þar, eins og annars staðar í neðri hluta árinnar, minnkað hvernig sem á því stendur. Hins vegar eru hrygningarskilyrði betri á neðra svæðinu en hinu efra og virðist hrygningarlaxinn láta sig sakka niður úr gljúfrinu þegar líða tekur á haust.

Neðan við Húsahyl taka aftur við hávaðar og hratt rennsli þar til komið er á lygnara vatn, þar erNetahylur, matarkista heimamanna fyrr á tímum. Hann var lagfærður fyrir nokkrum árum og er nú breiður, langur og lygn. Í honum liggur fiskur á víð og dreif eftir vatnsstöðu. Síðan snarbeygir áin til norðvesturs, austan megin er hár bakki en að norðan eru malareyrar.

Neðan við beygjuna hefur hylur grafist inn í dökka móbergsklöpp og ber nafnið Svartabakkahylur. Hann er ansi djúpur efst en úr honum er renna sem opnast niður á fallega breiðu. Þegar miðlungsvatn er í ánni eða meira myndast á breiðunni  kjörskilyrði fyrir laxinn. Þarna er spennandi að sjá ólguna af stórum fiski sem eltir flugu veiðimannsins. Síðan þverbeygir áin aftur og neðan við þá beygju er gamall brúarstöpull sem nú stendur nánast í miðri ánni.

Sitt hvoru megin við Stöpul hefur áin grafið sig niður og myndað rennur sem lax stansar í.

Neðan við gömlu bogabrúna er Brúarhylur, grýttur og langur. Hann er veiddur langleiðina niður að nýju brúnni á þjóðveginum en aðaltökustaðurinn er ofarlega  í hylnum.

Þá er komið að neðsta veiðistað í ánni, Réttarhyl. Vegna vegagerðar og grjóttöku hefur honum hrakað og er hann nú ekki nema svipur hjá sjón hjá því sem áður var. Í ósnum er ekki veitt.

Free Web Hosting