Saga laxveiða í Miðjfarðará og Litlu-Kverká
Lax hefur gengið í Miðfjarðará alla tíð og þóttu laxveiðar góð búdrýgindi áður fyrr. Það sem einkenndi stofninn í Miðfjarðará löngum var hversu fiskarnir í ánni voru stórir. Þeir hafa minnkað með árunum, m.a. vegna seiðasleppinga á 10. áratugnum og vegna áhrifa frá laxeldi. Netaveiði var einkum stunduð í ánni, en heimildir eru um að heimamenn og aðkomumenn hafi á fyrri hluta 20. aldar veitt lax á stöng til skemmtunar.
Um miðbik síðustu aldar hófu nokkrir áhugasamir aðilar úr Reykjavík, sem þó tengdust svæðinu, að kanna með fiskræktun í ánni og að stunda þar stangveiði. Þeir keyptu eyðijörðina Kverkártungu, sem á stóran arðshlut í ánni og jafnframt stóran hlut í Miðfjarðarjörðinni. Veiðileyfi voru ekki seld á almennum markaði. Þessir aðilar byggðu síðar lítið hús við ána, sem notað var sem veiðihús. Í því er hvorki rennandi vatn né rafmagn.
Ýmsar tilraunir til fiskræktar hafa verið gerðar í ánni. Á 10. áratugnum voru stundaðar seiðasleppingar og var farið með seiði langt upp eftir ánni. Þessum sleppingum var hætt um aldamótin, enda óljóst með árangur af þeim. Lax hefur verið fluttur til hrygninga upp fyrir Fálkafoss, sem ekki er laxgengur.
Framangreindur hópur og afkomendur þeirra höfðu ána á leigu til hausts 2008. Þá ákvað stjórn veiðifélagsins að framlengja ekki gildandi samning. Auglýst var eftir tilboðum í ána og í byrjun árs 2009 var samið við núverandi leigutaka til fimm ára. Ári síðar ákvað veiðifélagið, í samvinnu við hinn nýja leigutaka, að koma upp veiðihúsi við ána. Samhliða því var samningur aðila framlengdur til fimm ára. Veiðihúsið kom á staðinn sumarið 2009. Það er fullbúið, með góðri svefnaðstöðu, vatni og rafmagni.
Til skoðunar er að lengja fiskveg árinnar, en til þess þyrfti að gera þrjá fossa laxgenga. Með því myndi veiðisvæði árinnar tvöfaldast.
Veitt hefur verið á tvær stangir frá upphafi. Nú eru eingöngu stundaðar fluguveiðar í ánni og laxi yfir 70 cm. er sleppt.